Enn einn dagurinn

Ég vakna eftir stórkostlega drauma, stíg fram úr rúminu og fæturnir lenda beint ofan í hreina sokka og pússaða skó og fötin, nýpressuð af ástsjúkri vinkonu bíða mín undir nærbuxunum hennar og þau skríða silkimjúk á útlimina og blettast ekki af heitu brasilísku lúxuskaffi sem aðdáandi minn úr næsta húsi kom með í morgun eins og venjulega með beinu flugi frá Brasilíu og svo kveiki ég á útvarpinu þar sem uppáhaldslagið mitt rennur sitt skeið á undan fréttum sem eru mér allar að skapi og svo geng ég út og anda að mér einstaklega súrefnisríkum loftsveip sem fyrir tilstilli hentugrar vindáttar og þverbrotinna náttúrulögmála fylgir mér að bílnum sem aldrei bilar og svo set ég í gang og tek eftir að bensíntankurinn er fullur og vélin er hljóðlát og stillt á lágmarkseyðslu eftir yfirferð bifvélavirkjans sem kom í gær til þjónustu reiðubúinn á vegum félags sem ég vissi ekki að ég væri í og ég renn úr hlaði og kveiki aftur á útvarpinu og heyri að í gærkvöldi voru lottótölurnar mínar enn dregnar út eftir beinu útsendinguna frá spurningakeppninni sem ég vissi öll svörin í og næst flytur skýrmæltasta fréttaþulan fréttir frá Alþingi þar sem óþverrafrumvarpi var hent út með öllum atkvæðum gegn engu og ég keyri af stað og sé blaðastand þar sem stendur á forsíðum allra dagblaða að blóðið sem ég gaf í Blóðbankanum í gær hafi leitt til lækningar á krabbameini og ég brosi og á næstu umferðarljósum blístra ég lag sem tónlistarmaður í næsta bíl fær á heilann og gerir heimsfrægt á komandi mánuðum og á grænu ljósi keyri ég í veg fyrir bíl bankaræningjaflokks og hann veltur án þess að nokkur meiðist og þeir gefast upp baráttulaust því þeir festu fingurna í öskubökkunum og ég fæ fálkaorðu og mikil verðlaun og er boðið að vera gestur í vinsælasta sjónvarpsþætti landsins og ég er kosinn maður ársins af stjórnanda þáttarins sem heitir Jóna Sólný en upp úr því sef ég hjá henni og barna eins og allar konur sem ég snerti og börnin mín eru öll hraust og hamingjusöm og vegnar vel í lífinu og þegar ég hef lagt í gjaldfrítt stæði á besta stað í miðbænum hitti ég óvænt á röltinu leiðtoga heimsins gráa fyrir járnum á barmi styrjaldar og spyr Bandaríkjaforseta á Eyjafjallaensku hvað klukkan sé en með þessum hreim þýðir spurningin eitthvað stórmerkilegt á kínversku og leiðtogi þeirrar þjóðar grípur orðin á lofti og allir sættast og leysa upp úr því helstu vandamál heimsins og í þakkarskyni gefur frönsk sendinefnd mér verðlaunabúðing með ananasbragði þegar ég geng á braut og klukkan er bara tíu og sólin skín á mig gegnum einu skýjaglufuna á himninum og yfir hafið fjúka peningar ofan í vasa mína þar sem leið mín liggur framhjá besta bíóinu í bænum þar sem uppáhalds myndin mín er í sýningu og ég fer inn og þar er troðfullt út úr dyrum nema besta sætið er eftir fyrir mig og þetta er power sýning í þrívíddarvíðómi og við fagnaðarlæti horfi ég á bestu mynd allra tíma – Dagur í lífi Rúna Rokk.

 

Þetta góðærisljóð samdi ég í blindni og gaf út árið 2005 í samnefndri ljóðabók, og er bara nokkuð ánægður með það LoL Njótið heil!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Jeminn eini ég fékk verk í augun við það að lesa þetta, allt í belg og biðu.  Ég villtist oft á línum og þurfti að einbeita mér mjög vel.  En sem betur fer tókst mér að lesa allt ljóðið.    Ein smá spurning afhverju eru þessar tvær kommur í byrjun ljóðsins?  Þær eru stílbrot að mínu mati

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.3.2009 kl. 00:46

2 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Ha? Kommur? Sé þær ekki. Það hlýtur að vera eitthvað local.

Það er hluti ljóðsins að hafa það í belg og biðu :) en kannski að ég lagi línubilið ef hægt er.

Þakka lesturinn!

Rúnar Þór Þórarinsson, 2.3.2009 kl. 00:48

3 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Ah, afsakið að línubilið er ólæknandi. Eins og efnahagsundrið var á þessum tíma!

Rúnar Þór Þórarinsson, 2.3.2009 kl. 00:52

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það eru kommur á eftir fötin, og drauma, í efstu tveimur línunum 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.3.2009 kl. 00:57

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það er ekkert ólæknandi, ég held að það sé hægt að laga línubilið.  Með því að opna færsluna í stjórnborðinu og handvirkt ýta á enter í hverri línu.  Annars er ég ekki viss

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.3.2009 kl. 01:06

6 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

gaman að þessu

Hólmdís Hjartardóttir, 2.3.2009 kl. 01:08

7 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ég skil komurnar þannig 1, 2, .... svo er allt komið á fleygi ferð og mann sundlar.

Júlíus Björnsson, 2.3.2009 kl. 01:59

8 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Þær kommur eiga að vera - Góðæriskynslóðin hrasar ekki um svoleiðis smáhindranir

Rúnar Þór Þórarinsson, 2.3.2009 kl. 04:12

9 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ljóðið er lesið í beinu framhaldi af því að hafa farið út með hundinn að pissa klukkan fimm um morgun í frosti og stillu sem gerði það að verkum að ég glaðvaknaði og þurfti að gera eitthvað hámenningarlegt sem mundi fanga huga minn í neikvæðum hagvexti sem hefur verið hér fyrir norðan Holtavörðuheiði og fyrir vestan Tröllaskaga og fyrir austan Vestfirðina í boði Byggðastofnunar og Tryggva Þórs Herbertssonar síðan 1998 eða voru það þau sem reiknuðu það út en miðað við það að hundurinn minn er sofnaður og ég farin að draga ýsur í morgunsárið er ljóðið bara ansi gott og fær verðlaun fyrir vel unnin störf frá fríðu bjarna en þakkarávarpið á ekki að vera með línubili af því að það veit enginn hvar þau eiga að vera

Hólmfríður Bjarnadóttir, 2.3.2009 kl. 05:14

10 identicon

Þakka þér -

Vilmundur heitinn Gylfason átti sér draum um hið fullkomna þjóðfélag - það var fallegur draumur hins hughreina manns -

Mér finnst ljóðið þitt líka vera þannig - annars á ekki að skilgreina þetta ljóð - bara njóta þess í friði.

Ólafur I Hrólfsson 

Ólafur I Hrólfsson (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 06:38

11 Smámynd: Hermann Óskarsson

Þettar er flott hjá þér og minnir um margt á „Beat“ bókmenntastefnuna bandarísku a la Allen Ginsberg eftirstríðsáranna.

Hermann Óskarsson, 2.3.2009 kl. 06:54

12 Smámynd: Hlédís

Takk Rúnar Þór!   Gott prósaljóð - gefur margvísleg hugrenningatengsl. Eitthvað fyrir alla!  Breyttu ekki svo mikið sem hálfri kommu.

Hlédís, 2.3.2009 kl. 07:39

13 Smámynd: Ólafur Ingólfsson

þrælgott

Ólafur Ingólfsson, 2.3.2009 kl. 10:00

14 Smámynd: Þór Jóhannesson

Mjög viðeigandi - og stíllinn er meira að segja í takt við nýmóðinsdýrkun tímabilsins. Vel gert.

Þór Jóhannesson, 2.3.2009 kl. 11:24

15 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Kærar þakkir öllsömul!

Ég vil síður fjalla of mikið um eigin texta en viðurkenni að ég kemst hreinlega alltaf í gott skap við að lesa þetta í hálfum hljóðum - Skiptið ykkar eigin gælunafni út fyrir "Rúni Rokk" - kannski að þetta sé hnattræn virkni?

Hólmfríður: Takk fyrir viðskeytið!

Ólafur: Satt , þetta er á mörkunum að vera ljóð en mér fannst það ná nægilegri merkingavíkkun sem ég krefst af ljóðum. Svo er það hvers manns að dæma.

Þór: Ég verð að viðurkenna að það var alveg óvart - ég samdi þetta innan úr glimmerkúlunni og geri mér ekki upp að hafa áttað mig á því hvað var í gangi.

Þið hin: Takk fyrir yfirlesturinn og falleg orð.

Rúnar Þór Þórarinsson, 2.3.2009 kl. 12:32

16 Smámynd: Gunnlaugur Bjarnason

Þakka sendinguna.

Hef þó þörf fyrir að vera leiðinlegur núna í kreppunni... þú sagðist ekki skilja af hverju þetta væri ekki orðið heimsfrægt.. gæta þýðing kannski hjálpað ?

Bara grín, mér fannst þetta skemmtilegur lestur og svona án þess að vita það alveg með vissu held ég að mér gæti hafa hugsanlega kannski örlítið smá liðið eins og útrásarvíkingi, svona rétt augnablik :-)

Gunnlaugur Bjarnason, 2.3.2009 kl. 13:22

17 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér gekk miklu betur að lesa ljóðið, svona snemma dags.  Óþreytt, ekki nýkomin heim af erfiðri vakt á barnum í gærkvöldi.  Svo gleymdi ég að segja, ljóðið finnst mér fallegt.  Það eru góðir straumar í því. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.3.2009 kl. 16:45

18 Smámynd:

Flott ljóð Rúnar.

, 2.3.2009 kl. 17:28

19 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Þér bregst ekki bogalistinn, Rúnar, frekar en fyrri daginn...

Kveðja úr Firðinum Fagra

Eiður Ragnarsson, 3.3.2009 kl. 00:42

20 Smámynd: Haraldur Hansson

Þetta er bara flott!

Haraldur Hansson, 3.3.2009 kl. 14:28

21 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Takk fyrir, mér þykir einstaklega vænt um að heyra frá ykkur.

Já Gunnlaugur, ég held það sé nefnilega þessvegna sem mér líður alltaf vel eftir lesturinn - Tilveran getur ekki farið úrskeiðis!

"..sólin skín á mig gegnum einu skýjaglufuna á himninum og yfir hafið fjúka peningar ofan í vasa mína..." Uppáhalds setningin mín.

Rúnar Þór Þórarinsson, 3.3.2009 kl. 15:18

22 Smámynd: Björn Þór Jóhannsson

Þetta ljóð er alltaf jafn skemmtilegt og á einstaklega vel við núna.

Eiður! Hvenær fluttir þú á Stöðvarfjörð??

Björn Þór Jóhannsson, 3.3.2009 kl. 15:55

23 Smámynd: Eiður Ragnarsson

 Stöðvarfjörðurinn er vissulega fallegur... Og þó ég nefni minn fjörð "Fjörðin fagra" þá er ég ekki að gera lítið úr öðrum fallegum fjörðum...

Eiður Ragnarsson, 4.3.2009 kl. 17:18

24 identicon

Hef ekki farið inn á gmailinn síðan við vorum saman í Atlanta

Prósinn virkar greinilega ekki síður í kreppunni en hann gerði þegar bókin kom út..

Á ekki að leyfa fólki að njóta fleiri ljóða..?

Pabbi

Þórarinn Lárusson (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 02:02

25 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Já, ég ætti kannski að grafa upp eitthvað af því sem ég hef ekki gefið út enn :)

Rúnar Þór Þórarinsson, 15.3.2009 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rúnar Þór Þórarinsson

Höfundur

Rúnar Þór Þórarinsson
Rúnar Þór Þórarinsson
Leikjahönnuður m.m.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Búinn að fá bita hjá öllum!

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband