Sagan sem enginn vill heyra

Ég endurbirti hér í heimildaleysi grein af this.is um hernám Ísraelsmanna á Palestínu. Mjög greinargott yfirlit yfir þær aðstæður sem Ísraelsmenn hafa skapað í Palestínu með dyggri aðstoð Bandaríkjamanna og þjóna þeirra.

 

Ég hvet ykkur til að lesa þessa grein á http://this.is þar sem hún á heima, en ef þið eruð of aðframkomin til að ýta á tengilinn, hér er þetta:

 

 

Sagan sem enginn vill heyra

Anna Tómasdóttir er hjúkrunarfræðinemi við Háskóla Íslands. Í sumar dvaldi hún í þrjá mánuði á svæðum Palestínumanna á Vesturbakka Jórdan-ár á vegum samtakanna Project Hope. Þar kenndi hún konum í palestínskum þorpum skyndihjálp og tók þátt í enskukennslu fyrir palestínska háskólanema. Í ljósi yfirstandandi fjöldamorða í Gaza leitaði Nei. til Önnu til að fræðast um ástandið í Ísrael og Palestínu.

anna500

Anna Tómasdóttir.

„Það er ekki til neinn Vesturbakki lengur“

Árið 1947 ákváðu hinar nýstofnuðu Sameinuðu þjóðir að skipta Palestínu (þá undir stjórn Breta) milli innfæddra Palestínumanna sem áttu að fá 45% landsins og minnihluta gyðinga sem að stærstum hluta höfðu flúið ofsóknir Evrópumanna. Síðan hefur Ísraelsríki innlimað og hernumið afgang Palestínu. Palestínumenn gera í dag kröfu til Vesturbakkans og Gaza (22%), sem hafa verið hernumin frá árinu 1967, ef frá eru talin afmörkuð þéttbýlissvæði, gettó, umsetin hernámsliði þar sem Palestínumenn hafa fengið innri stjórn í kjölfar hins svokallaða friðarferlis. Undanfarin ár hafa Ísraelsmenn unnið linnulaust að því að girða af og einangra öll svæði Palestínumanna og svo virðist sem þeir ætli Palestínu þá framtíð að verða einhverskonar gettó-ríkjasamband sem að endingu fjarar út og gleymist.

Anna segist hafa orðið mjög hissa þegar hún upplifði sundurliðun Palestínu fyrst.

„Ég hafði ímyndað mér Vesturbakkann sem ákveðna heild“, segir hún. „En eitt sinn, í upphafi dvalar minnar, var ég að keyra á ísraelskum vegi og hélt að ég væri í Ísrael en gerði mér þá ekki grein fyrir því að ég var stödd á Vesturbakkanum alveg upp við Jórdaná. Þessi ruglingur orsakaðist af því að Ísraelar hafa allstaðar bútað niður og girt af landsvæði Palestínumanna og komið fyrir landnemabyggðum þar á milli. Það er í raun og veru ekki til neinn palestínskur Vesturbakki lengur.

Þetta kemur hörmulega niður á allri atvinnuþróun: Þú kemst ekki til vinnu í næsta bæ og einskorðast við borgina, bæinn eða þorpið sem þú býrð í og ert í raun og veru lokaður þar inni. Ef fólk ætlar að komast á milli bæja þá fylgir því sú niðurlæging að þurfa að fara í gegnum varðstöðvar (check-point) en það eru þrjár til fjórar varðstöðvar á milli allra bæja. Sú staðhæfing Ísraelsmanna að varðstöðvarnar séu þarna af öryggisástæðum á ekki við rök að styðjast því þarna eru aðrir vegir sem fólk getur notað til að komast á milli. Ísraelsmenn vita alveg af þessum vegum en þeir eru lengri og torfærari og alls ekki færar öllum. Ég hélt að það væri einhver heildstæð ísraelsk stefna á bak við þessa kúgun, en ég get ekki séð að það sé nokkur annar tilgangur með varðstöðvunum en að niðurlægja Palestínumenn og gera þeim lífið eins erfitt og mögulegt er.“

anna500

Frá Al-Najah háskólanum í Nablus. Nemendur Önnu í ensku.

Landránsmenn í Hebron og Yannun

„Áður en ég fór út fannst mér aðskilnaðarmúrinn vera helsta tákn óréttlætisins. En í raun og veru er hann ekki neitt miðað við landránsbyggðirnar. Þær eru 149 talsins og í þeim búa yfir 450.000 manns ólöglega á Vesturbakkanum sem á að vera svæði fyrir framtíðarríki Palestínumanna. Landránsbyggðirnar eru á milli allra palestínsku borganna og bæjanna og þær eru forsendur varðstöðvanna.

Sumir landránsbæir eru svo stórir að farið er að kalla þá borgir, og þangað flytur kannski fjögurra manna bandarísk fjölskylda vegna þess að pabbinn fær ekki vinnu í Bandaríkjunum. Honum býðst vinna í ólöglegri landránsbyggð Ísraela á Vesturbakkanum, ókeypis húsnæði fyrstu tvö árin og ef hann býr þarna lengur en sjö ár fær hann 30% af húsnæðinu greitt af ísraelska ríkinu; sjálfsbjargarviðleitni fólks segir því að fara til Ísrael án þess að það hafi einhverja hugsjón um að vernda hið „Helga land” eða neitt svoleiðis. Viðhorf þessa fólks til Palestínumanna byggjast svo auðvitað á neikvæðri umfjöllun um Palestínumenn í ísraelskum og bandarískum fjölmiðlum. Þarna eru líka gríðarlega margir öfgafullir landræningjar sem flytja á Vesturbakkann af hugsjóninni einni saman. Þeir hafa það viðhorf að drepa skuli alla Araba og að guð muni svo sjá um uppgjörið. Það er sérstaklega í Hebron sem landrændræningjarnir eru ágengir og í kringum lítil þorp á borð við þorpið Yannun. Í því búa 100 fjölskyldur sem eru algerlega umkringdar landránsbyggðum. Landræningjarnir áreittu íbúana svo mikið að árið 2006 þurftu þeir allir að yfirgefa þorpið, en þeir snéru svo aftur nokkrum mánuðum seinna með alþjóðlegu liði sjálfboðaliða í hjálparstarfi sem hafa verið þar síðan. Fólkið þarf alþjóðlega vernd allan sólarhringinn og allt árið til að geta búið í þorpinu sínu. Hebron hefur verið palestínsk borg í mörg hundruð ár. Gömlu miðborginni er nú skipt niður og ákveðin svæði eru bönnuð Ísraelsmönnum eða gyðingum og önnur eru bönnuð Palestínumönnum eða múslimum. Þegar við fórum að skoða Hebron eltu hermenn okkur út um allt og með þeim var lítill strákur, sjö eða átta ára, og talaði með bandarískum hreim. Við komumst að því að hann hafði nýverið flutt ásamt foreldrum sínum frá Kanada til landránsbyggðar í miðborg gömlu borgar Hebron þar sem allir ganga með M-16 vélbyssur! Foreldrar þessa drengs hafa tekið þá ákvörðun að flytja frá Kanada í gömlu borgina í Hebron! Í gamla bænum búa 400 landnemar og í kringum þá búa 175.000 Palestínumenn sem hafa verið hraktir í burtu frá gamla bænum. 500 ísraelskir hermenn hafa það hlutverk að gæta ísraelsku landránsmannanna.“

Yfirvegað og hægfara þjóðarmorð

Á Íslandi tölum við um neikvæð áhrif tölvuleikja og ofbeldismynda á börnin okkar. Hvaða áhrif heldur þú að stöðugt umsátursástand hafi á börnin í Palestínu?

„Það er búið að skapa vítahring. Öll reynsla og almenn skynsemi segja að ofbeldisfull hegðun gagnvart fólki leiðir til ofbeldisfullra viðbragða. Það eru börn á Gaza sem upplifa núna að helmingurinn af bekknum þeirra var drepinn. Það eru stöðugar árásir og stöðugar skothríðir, þau míga undir í rúminu, spyrja kannski “hvað dóu margir í þessari sprengingu?” og reyna að skilja hvað er að gerast. Þessi börn verða mörkuð djúpum örum til frambúðar. Ég veit ekki hvort ísraelsk stjórnvöld séu það heimsk að þau haldi að svona aðgerðir muni leiða til þess að fólk vilji skapa frið. Meðalaldurinn á Gaza er sautján ár. Helmingurinn af þeirri einni og hálfu milljón sem búa á Gaza eru fjórtán ára og yngri. Það er heimskulegt að láta það hvarfla að sér að þessi börn muni í framtíðinni vilja koma á friði milli þessara tveggja þjóða. En ég held að Ísraelsmenn séu ekki svo vitlausir að þeir haldi það. Ég held að markmiðin þeirra séu allt önnur.“

Hver heldurðu að markmiðin séu?

„Mín tilfinning er sú að Ísraelar vilji afmarka fólk við ákveðna bæi, loka það inni og girða það af og toga svo lífið og lífsviljann hægt og rólega úr því. Þetta er yfirvegað og hægfara þjóðarmorð - og allan þann tíma sem ég dvaldist í Palestínu sá ég nákvæmlega ekkert sem gaf mér ástæðu til að halda annað. Þjóðarmorð felst ekki bara í beinum slátrunum. Það er verið að afvegaleiða menninguna líka. Menningin getur ekki þróast á eðlilegan hátt. Ef það væri ekki fyrir Internetið væri þetta fólk algerlega lokað af og hefði nákvæmlega engin samskipti við umheiminn. Hversu afturhaldssamt og afskekkt heldur þú að þjóðfélag geti orðið við slíkar aðstæður? Oft fannst mér hreinlega ótrúlegt að upplausnin og lætin væru ekki meiri.“

Hugtakaruglingur

„Árásirnar á Gaza eru ekkert annað en hóprefsing í orðsins fyllstu merkingu. Það er ekki ein einasta manneskja á Gaza sem verður ekki fyrir barðinu á innrásinni og afleiðingum hennar. Ekki ein einasta manneskja! Ef markmiðið er að koma á friði þá sé ég ekki hvernig þessar aðgerðir ættu að stuðla að því. Í Ísrael er her, þar eru stjórnvöld, þar er þing og meint lýðræði. Hefnd og hatur finnst mér vera eitthvað sem er bundin við einstaklinga; þetta eru kenndir sem einstaklingar bera í garð hvors annars en ekki ríki í garð þjóðar. Það er ekki hlutverk ríkis að hata og hefna.

anna500

Anna ásamt palestínskum læknanema í teboði eftir skyndihjálpartíma í Þorpinu Yannun.

Ef þú skoðar enska orðið terrorist þá þýðir terror hræðsla og terroristi hlýtur þá að vekja hræðslu í fólki. Ef þú ætlar að kalla mann sem skýtur rakettum yfir á landránsbyggðir í Ísrael hryðjuverkamann þá sé ég ekki muninn á honum og þeim sem eru að terrorísera fólk á Gaza eða Vesturbakkanum eða hvar sem er í heiminum. En í dag eru orðin múslimi eða Hamas-liði samnefnarar fyrir hryðjuverkamenn. Ég hef oft hugsað um það að í fyrstu árásinni á Gaza voru fjörutíu lögreglumenn drepnir í skrúðgöngu. Þetta eru menn sem hafa það að atvinnu að starfa fyrir hið opinbera og hinu opinbera er stjórnað af lýðræðislega kjörinni stjórn. Þeir vinna fyrir Hamas en eru ekki Hamas-liðar. Þetta er eins og að kalla mig Samfylkingar- og Sjálfstæðisflokksliða því ég vinn á ríkisreknum spítala - og þar með er ég auðvitað réttdræp. Umræðan um það hver er óbreyttur borgari í þessu stríði er út í hött. Palestína er herlaust land. Eru ekki allir óbreyttir borgarar í landi sem hefur engan her? Er lögreglumaður ekki óbreyttur borgari?“

Kerfisbundið niðurbrot

Breaking The Silence eru samtök fyrrum hermanna úr Ísraelsher. Í yfirlýsingu frá þeim segir: Það að hlusta og axla ábyrgð er það allra minnsta sem ætlast er til af ríki og fulltrúum þess í siðmenntuðu og mannsæmandi samfélagi sem byggt er á lágmarks siðferðilegum gildum. Er sjónarhorn þeirra það að þessar aðgerðir grafi undan getu Ísraels til að skilgreina sig sem lýðræðislegt ríki?

„Þessi sjónarmið sem þú talar um eru sjónarmið sem búa í manneskju áður en hún fer í herinn. En svo verður manneskjan að hermanni - í Ísrael er herskylda, karlmenn verða að lágmarki að þjóna í þrjú ár en konur tvö - og fyrsta árið ertu látinn dúsa á eftirlitsstöðvunum. Þar eru tólf tíma vaktir dag eftir dag og þú ert alltaf skít hræddur um að „hryðjuverkamaðurinn komi“ því það er búið að stimpla það inn í hausinn á þér að það séu hryðjuverkamenn út um allt í Palestínu. Þú ert alltaf svangur, þú ert alltaf þreyttur, þú kemst aldrei á klósettið, þú ert alltaf pirraður því þú þarft að segja sömu setninguna aftur og aftur og aftur: „Nei þú mátt ekki fara í gegnum varðstöðina, snúðu til baka“ og þetta endur tekur þú aftur og aftur og aftur allan daginn. Að ári liðnu ertu orðinn ofboðslega þreyttur og upplifir örugglega mikið sjálfshatur og skeytingarleysi í garð allra. Ég heyrði hermenn lýsa því að þeim var orðið alveg sama hvort þeir lifðu eða dóu eftir þessa reynslu. Og um leið og fólk er farið að hata sig nógu mikið og það er farið að gefa skít í allt, þá er það sent í svona innrásarherferðir eins og þá sem nú stendur yfir á Gaza. Margir hermenn lýstu því þannig að þetta væri eins og byssuleikur, þetta væri svo óraunverulegt og súrrealískt. Þetta kerfi hefur gríðarleg áhrif á geðræna heilsu Ísraelsmanna. Allir fara í herinn eða þekkja einhvern sem fer í herinn og þá má spyrja: Hver er óbreyttur borgari í Ísrael ef allir fara í herinn? Þar ríkir ofboðslegt sjálfshatur og mikil áfallaröskun og stór vandamál munu fylgja ísraelsku þjóðinni um ókomin ár.“

Heyrðirðu hermenn lýsa þessu svona? Að kerfið sem þeir eru settir inn í geri úr þeim drápsvélar sem er skítsama um allt?

„Já, og að það skipti nákvæmlega engu máli hvaða hugsjónir og lífsviðhorf þú hafðir áður en þú gekkst í herinn. Hernum tekst að merja þig niður og gera hugsjónir þínar að engu þar til þér er farið að vera drullu sama um allt og alla. Og þegar þú líkur þinni herskyldu hefur þú orðið fyrir áfalli sem tekur langan tíma að jafna sig á.“

Upplýsingar sem enginn vill sjá

Hvað finnst þér um íslenskan fréttaflutning af ástandinu?

„Stundum er ég voða fegin því að yfirhöfuð sé fjallað um deiluna. En alltaf vantar megnið af sögunni inn í frásögnina. Allt er apað upp eftir erlendum fjölmiðlum. Það er eins og enginn þori að segja sannleikann. Ég veit ekki hvaðan þessi hræðsla við að segja sannleikann kemur. Kannski nennir enginn að heyra sannleikann. Það vilja allir sjá lítið barn með riffil í hendinni; það vilja allir sjá skandala og ógeðfelldni í sjónvarpinu. Það er kannski ógeðslegt að segja þetta, en ég held að þetta sé því miður satt. Ég hef heyrt af því að blaðamenn biðji palestínsk börn um að kasta steinum fyrir framan myndavélarnar, ég heyrði mannfræðing, sem starfaði mikið með barnahermönnum í Afríku, segja frá því að ljósmyndarar þar fara í sérstakar útsýnisferðir með uppreisnarhermönnum þar sem barnahermönnum er stillt upp fyrir fjölmiðla. Kannski hefur ástandið á Gaza vakið svona mikla athygli núna því það er svo mikið um barnamorð. Það er ekki fyrr en menn fara að slátra börnum í stórum stíl sem fjöldamorð þykja fréttnæm. En ég held að fólk hafi ekki áhuga á að vita hvað býr að baki þessum morðum. Fólk nennir ekki að spá of mikið í þetta og ég verð mikið vör við það að fólk vill ekki af þessu heyra.“

Hvernig finnst þér að heyra Geir H. Haarde lýsa því yfir að það sé ekki hefð fyrir því að fordæma svona árásir á Íslandi? Koma ummælin þér á óvart?

„Þetta kemur mér ekki á óvart en mér finnst hræsnin ofboðsleg. Tókum við ekki afstöðu með Bandaríkjamönnum um að styðja innrásina í Írak? Er það ekki afstaða? Bandaríkjastjórn, sem er á móti fóstureyðingum, situr hjá eða beitir neitunarvaldi innan öryggisráðs SÞ. Að vera á móti fóstureyðingum en styðja barnamorð er hámark allrar hræsni. Að íslensk stjórnvöld geti ekki viðurkennt þessi ógeðslegu mannréttindabrot og slitið stjórnmálasamstarfi við Ísrael finnst mér í raun og veru út í hött. Þótt þau segist fordæma aðgerðir Ísraels þá fylgir alltaf með að Hamas eigi þarna einhverja sök að máli - en það kemur hvergi fram að hernám Ísraela er ástæða þess hvernig þjóðfélagið hefur þróast á Gaza. Þetta stöðuga hernám er uppsprettan af þessu öllu.“

Geta íslenskir ráðherrar sett sig í þessi spor?

„Ef þeir myndu gefa sér tíma þá myndu þeir pottþétt geta það. Palestína er eins og opin bók sem fólk þarf að lesa, en það veit yfirleitt ekki að þessi bók er til. Fyrir innrásina á Gaza héldum við opinn fund og töluðum um ástandið í Palestínu. Þar spyr einn maður rosalega hissa: „Bíddu hvernig vitið þið þetta allt saman? Hvaðan fáið þið þessar upplýsingar?“ Þessar upplýsingar eru ekki faldar umheiminum. Ef fólk hefur áhuga, þá eru upplýsingarnar til staðar. Þetta eru upplýsingar frá alþjóðlegum stofnunum á borð við Sameinuðu Þjóðirnar og Amnesty International. Það að Ísland og Bandaríkin skulu tilheyra Sameinuðu þjóðunum en geti ekki einu sinni fordæmt brot á eigin mannréttindayfirlýsingu er út í hött. Þetta eru kannski ekkert svo sameinaðar þjóðir.“

Magnús Björn Ólafsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rúnar Þór Þórarinsson

Höfundur

Rúnar Þór Þórarinsson
Rúnar Þór Þórarinsson
Leikjahönnuður m.m.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Búinn að fá bita hjá öllum!

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 60399

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband