Færsluflokkur: Bloggar

Syndir Sjálfstæðisflokksins

Bjarni Benediktsson bætir þarna einni myglaðri rós enn í hnappagat síns flokks. Sama hvernig hann skreytir það, þá er hann er í alvöru að kvarta yfir því að VG skuli dirfast að styggja sinn flokk - ekki viðsemjendur - á þessu stigi.

 

Plan hans að þvo hendur flokksins af Icesave hefur alltaf verið vonlítil, og er nú endanlega farið í svaðið. Ekki nema von að hann sé sár. Fólk TALAÐI! Ekkert kemur Sjálfslæðisfokknum verr en dagsljósið.

 

Þeir einu sem styggjast við þetta eru Sjálfstæðismenn, því þetta flettir ofan af þeim. Ekki var þeim í mun að vinna landi og þjóð. Mikið hlýtur restin af stjórnarandstöðunni að vera glöð með þetta, búin að plotta og reifa málið miðað við að núverandi félagshyggjustjórn sé um allt að kenna, en svo kemur upp úr dúrnum að búið var að lofa öllu fyrirfram? Erðanú...

 

Annars er ég kominn á þá skoðun að við eigum ekki að ábyrgjast neitt af þessu. Hirða má Landsbankann í Bretlandi og allt sem honum tengist þar. Enda kom hann okkur aldrei neitt við. Frekar en Icesave.


mbl.is „Makalaust innlegg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Glæpur" er klárlega ekki rétta orðið heldur

"Landráð" komast mun nær því að lýsa stjórnvöldum og athafnamönnum síðustu 20 ára en "glæpir". Guðni fer út á þann hála ís að segja óbeint að ekki sé hægt að nota orðið "Landráð" nema á stríðstímum. Það sér hver maður að er ekki satt. Menn geta stundað landráð í laumi og svo komast þau skyndilega upp. Mér finnst það ekki vera svo að menn fái fríspil bara vegna þess að þeim tókst að fara á bakvið allt og alla í lengri tíma.

 

Hann klikkir reyndar út með því að mæla með því að útvíkka skilgreininguna sem gæti verið ágætt svona til að taka af tvímæli.


mbl.is Nota á hugtakið landráð varlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæsluvarðhald

"Klukkan 10.30 í morgun var Pálmi Haraldsson hnepptur í gæsluvarðhald og mun sæta yfirheyrslum uns því lýkur. Á sama tíma gerði rannsóknalögregla ríkisins húsleit í höfuðstöðvum Fons og lagði hald á mikið gagnamagn. Aðgerðin var á vegum sérstaks saksóknara og nú eru að berast fréttir af aðgerðum niðri í Ármúla, en þar er ... til húsa."

 

Hvernig væri nú að sjá eitthvað svona? Löggan var að fara inn í Exista núna að spjalla við fólk yfir kaffibolla, fólk sem vinnur fyrir þá sem settu þjóðina á hausinn, en fólk sem gerir eitthvað smávægilegt eins og að slá til einhvers á fylleríi eða hnupla pylsu úr einhverri búð (yfirleitt í eigu Haga :)) situr í gæsluvarðhaldi.

 

OK, kannski að þeir "spjalli ekki yfir kaffibolla" en þið vitið hvað ég meina. Óttaleg silkihanskameðferð á þessum hvítflibbaglæpamönnum þarna heima, eitthvað annað en Bernie Maddoff í Bandaríkjunum t.d.


mbl.is Glitnir mokaði fé í Fons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær hafði hann rangt fyrir sér?

Hafði hann rangt fyrir sér árið 2003 eða árið 2010?

Hann allavega er í sömu sporum og DO (Morgunblaðið) að hafa farið með fleipur í annað hvort skiptanna :)

Annars bíð ég eftir því sem þjóðin má ekki heyra - Trúnaðaratriðunum sem ollu því að ríkisstjórnin gekkst við Icesave. Nú þegar kjósa þarf um þetta þarf að fá allt upp á borðið, þ.á.m. það sem farið hefur dult. Annars getur enginn kosið á réttum forsendum.

Eða er trúnaður við erlenda samningsmenn mikilvægari en lýðræðið?


mbl.is Ekki of flókið árið 2003
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær vikur...

...áfram, áfram, áfram. Þið náið þessu.

 

Febrúarmánuður verður merkilegur haldið þið ekki - Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram. Haldið þið að það verði hvítþvottarskýrsla eða almennilega unnin skýrsla sem þjónar yfirlýstum tilgangi? Ég verð að játa að þetta er nokkuð spennandi.


mbl.is Vona að skýrslan verði tilbúin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísraelskar herþotur brjóta lofthelgi

Um að gera að láta fyrirsögnina endurspegla kjarna fréttarinnar. Ísraelsmenn réðust inn í Líbanon fyrir skömmu og mega búast við skothríð fari þeir inn yfir Líbanon í herflugvélum með þvílíkan eyðingarmátt í farteskinu sem raun ber vitni.
mbl.is Skutu á ísraelskar herþotur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég veit hvar 3.6 milljarðar eru!

Ég er með þá í rassvasanum. Í alvöru, að leyfa sér að skrifa svona. Allir svertingjar eru heimskir. Allir múslímar eru hryðjuverkamenn. Allir Bandaríkjamenn eru heimskir... Breskur hroki. Eða almennt spaug. Eitthvað annað en lesa má hjá Hannesi Hólmsteini í Financial Times þar sem hann ver þjóðarhagsmuni þar til hatur hans á félagshyggju verður þjóðarást yfirsterkari:

 

"Many Icelanders are dismayed by the feebleness of the present Icelandic government, led by the left-leaning Social Democrat Johanna Sigurdardottir. This government seems to have succumbed to almost all the demands made by the British and the Dutch governments. It has even signed away its right to refer eventual legal disputes in the matter to the courts. Instead of explaining the Icelandic arguments abroad, Ms. Sigurdardottir has largely echoed the British and the Dutch positions in Iceland, possibly in the hope of being able to lead Iceland into the EU, a long-standing dream of the Icelandic Social Democrats."

 

Hannes Hólmsteinn er verri en Roy Hattersley, og munar þar talsverðu. Við þurfum ekki á svona þvælu að halda erlendis. Það er eitt að hlusta á þennan skrjóð í innlendum fjölmiðlum en hvað getur mögulega vakað fyrir honum að sverta íslendinga í Bandaríkjunum? Draga úr vilja kapítalista í vesturlöndum sem eru jafn truflaðir á geði þegar kemur að gamaldags kommahatri og Hannes Hólmsteinn til að hlusta á okkar málstað? Hann elskar þjóðina minna en frjálshyggjuna, það er ljóst.


mbl.is Hinir þrjósku Íslendingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bölsýnisfólk pissar í sandkassann og étur svo sandinn.

Rifjum aðeins upp:

  • Stjórnarandstaðan eins og hún leggur sig særir upp hefndardjöfulinn á nornamessu sinni, og bannfærir að fyrirtæki sem Björgólfur Thor á í (og hefur átt í árum saman) fái að gera samninga um stórframkvæmdir hér á landi. Þingmenn allra andstöðuflokka fara geyst í yfirlýsingum af mikilli vanþekkingu.
  • Stjórnin fer á taugunum og stöðvar málið á þingi, dauðhrætt um að fá á sig nornamerkið - Svarta blettinn eins og í Gulleyjunni - Og fá þjóðina á eftir sér með kyndla og kylfur. Þingmenn stjórnarflokka fara geyst í yfirlýsingum af mikilli vanþekkingu.
  • Eftir að VH hefur sett framkvæmdirnar á ís, þá fara popúlistar stjórnarliða á kreik og kenna forsetanum um (!) af mikilli vanþekkingu.
  • ...og popúlistar stjórnarandstöðu kennir stjórninni um að hafa ekki klárað samningana við VH (fyrirtæki að hluta í eigu BTB) um stórframkvæmdir hér á landi.

Þetta er eins og á illa reknum leikskóla. Skammist ykkar.


mbl.is Framkvæmdir við gagnaver stöðvaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi & co. vita lítið um gagnaverið - Svona gerðist þetta

Mér blöskrar orðið algerlega hvað þingmenn okkar og leiðtogar í þjóðfélaginu eru að tjá sig um þetta gagnaver. Þeir eru eins og ég veit ekki hvað, alltaf í mýrinni að stika sér leið gegnum þoku og myrkur. Þetta er dálítið langt og ég bið um dálitla þolinmæði ágæti lesandi, en svona gerðist þetta frá mínum bæjardyrum séð:

 

Hugmyndin um gagnaver fæddist á CCP. Það er kannski smá einföldun, því stærri hópur í samfélaginu skeggræddi þetta, en það sem ég vil vekja athygli á er leiðin sem þessi hugmynd fór frá teikniborðinu og í framkvæmd. Ég veit þetta því ég tók þátt í fjölda heitra umræðna á Klapparstígnum um það hvernig væri að gera orkubúskap Íslendinga fjölbreyttari og gáfulegri. Í stað þess að raða niður álverum og taka allan orkuauðinn í eina atvinnugrein og það fremur mengandi, að reisa frekar gagnaver. Það vantaði fjármagn og fólk sem tilbúið var að hætta miklum tíma og fjármunum, en þetta fannst okkur samt alveg stórkostleg hugmynd. Enda er hún það - Frábær! Svo héldum við áfram að drekka kaffi og fá fleiri hugmyndir...

 

Svo keypti Björgólfur Thor og General Catalyst hlut í CCP fyrir því sem virðist ár og öld og þeir fengu þannig beint samband við mannauðinn á CCP. Ekki spillti fyrir að EVE Online tók flugið og allir voru hæstánægðir með að fjárfesta í tækniiðnaði á Íslandi. Þetta var áhætta, en allt lenti þetta réttu megin.

 

Allavega, svo barst þessi hugmynd í tal á milli tölvunördanna annarsvegar og Novator og General Catalyst hinsvegar. Match made in Heaven - Þarna voru saman komnir menn sem höfðu áhuga á að fjárfesta í hátækni og ég efast ekki um að velgengni CCP hafi haft sín áhrif á því að þessir menn ákváðu að byrja á þessu ótrúlega stóra og dýra og djarfa verkefni, sem á eftir að vera landi og þjóð til góða. Störf fyrir 100 manns, engin mengun, hverfandi slysahætta og gríðarlegir stækkunarmöguleikar. Plús það að Ísland allt kemst í mun betri samband við umheiminn þ.s. betur verður um það hugsað í kjölfar gagnaflutninganna. Spáið nú aðeins í hvað hangir á spýtunni, verið er að skapa raunveruleg verðmæti hér.

 

Að lesa skrif Gylfa um að Novator sé nýr þáttakandi er eins og að heyra hann segja að sólin hafi fyrst risið þegar hann sá hana fyrst. Þetta er alveg sprenghlægilegt. Sömu sögu má segja um iðnaðarráðherra og þingmenn og ráðherra jafnt. Þetta fólk er að gera lítið úr sjálfu sér hvert um annað þvert að mínu viti og kemst upp með það vegna þess að eðlilega veit almenningur lítið um þetta og mjög er í tísku, og gagnlegt til atkvæðaveiða að brenna nornir á bankabálinu.

 

Athugum aðeins gagnrýnina í ljósi þess sem hefur verið uppi í þjóðfélaginu undanfarið:

  • "Hann Björgólfur á að koma heim með peningana og fjárfesta hér!" - Egill Helgason og flestir Íslendingar.
  • "Hann Björgólfur - Að koma heim með peningana svona og fjárfesta svona upp í opið geðið á okkur!" stjórnarandstaðan, Ögmundur Jónasson ofl. á þingi, Gylfi Arnbjörnsson ofl.

Reynið nú að ákveða ykkur!

Það sem er vítavert er að veita þeim undanþágur segja þau í kór úr Framsókn, Samfylkingu, Ögmundur Jónasson og fleiri (ummæli Ögmundar keyrðu um þverbak í algerri fávisku um málið). Hér fá álverin hinsvegar gríðarlegar undanþágur svo þau komi hingað en fari ekki eitthvað annað. Svo kemur hér hópur manna, íslenskra sem erlendra, og semja um eitthvað í áttina við það sem álverin komust upp með og fá bágt fyrir. Það bjánalega í þessu er að álverin fengu samninga sem eru svo fjarri því sem aðrir eiga kost á.

 

Það veit hver maður nornabrennusvarið við þessu: "En Björgólfur Thor ber ábyrgð á hruninu, við vitum vel hver gerði þetta, en það er ekki búið að sanna það." Svona erfitt getur verið að greina aðalatriðin frá aukaatriðunum! Hér er það sem eðlilegt væri að gera:

  1. Ekki stefna samstarfinu við Novator og General Catalyst í hættu með svona málflutningi heldur ná þessu liði  hingað í fjárfestingar af þessu tagi.
  2. Leyfa þeim að leggja vinnu, pening of þekkingu í að hámarka verðmæti fjárfestingarinnar og veita fólki vinnu við byggingu og rekstur.
  3. Aðskilið gagnaversmálinu, láta svo reyna á það fyrir rétti hvort Björgólfur Thor sé skaðabótaskyldur. Þá má fyrir mér hirða af honum eignir eins og t.d. Novator og gagnaverið upp í það.
  4. Ef hann ber ekki persónulega ábyrgð þá einfaldlega sleppur hann og hvorki ríkið hefur brotið á honum né hann á ríkinu. Þá uppsker hann laun þess að hlusta á klikkaða tölvunörda á CCP sem koma til hans með núll krónur, kvakandi um eitthvað gagnaver uppi á Íslandi sem glímir við það samskiptavandamál að skoskar rottur naga sæstrenginn í sundur við útlönd og skera á gagnaflutninga! Algerlega geðveik hugmynd,  of geðveik til að setja í hana fé nema þú sért alveg gríðarlega áræðinn.

Aðalatriðið á Íslandi nú er að gæta hagsmuna þjóðarinnar og það er ekki gert með því að klúðra þessu með vanhugsaðri popúlistapólitík.

 

Menn eru auðvitað saklausir uns sekt er sönnuð og það á ekki að hirða eignir af fólki eða koma fram við það í ósamræmi við aðra uns dómur hefur fallið. Og í sambandi við þetta gagnaver er Björgólfur ekki sekur um neitt nema hafa trú á verkefninu og koma að því með því fólki sem best hentaði við það. Alveg fáránlegt að ætla að dæma manninn til "rýrnun eignahlutar" eða eitthvað slíkt áður en einn einasti dómur er genginn. Hvað heimta þingmenn næst að hann láti af hendi af því sem hann tók þátt í að byggja upp áður en hrunið átti sér stað? Vill Gylfi kannski þynna eignarhlut hans í CCP? Kannski að þetta vanhæfa þinglið sem talar með rassgatinu á sér í sambandi við þetta gagnaver sé frekar treystandi til að láta þetta verða að veruleika? Nei ég held ekki.

 

Þetta nær ekki nokkurri átt. Nú ætla ég að reyna að láta mér detta í hug kjánalegt svar við þessum pistli mínum: "Björgólfur á svo stóra sök í hruninu að hann á ekki skilið að fyrirtæki sem hann á eitthvað í fái einhverjar ívilnanir." Ég segi: "Gætið frekar sanngirni og hafið hag þjóðarinnar í fyrirrúmi." Hafið frekar vit á að taka á móti fjárfestingum sem þessum opnum örmum og tryggja hámörkun verðmætanna m.a. með því að tryggja góð rekstrarskilyrði. Hversvegna í ósköpunum á Ísland að veita umhverfisníðingnum Rio Tinto ívilnanir fyrir rekstri sínum en ekki fyrirtæki í eigu manna sem ekki hafa verið sakfelldir fyrir neitt? OK, bankinn hans opnaði kannski Icesave reikningana í þökk Fjármálaeftirlitsins, Alþingis og Seðlabankans en ég veit ekki betur en að þar starfi enn flestir sömu einstaklingarnir nema rétt í efstu stöðunum. Og þó... eru sumir ráðherrar formenn og varaformenn flokkanna sem áttu kost á því heilsu sinnar vegna að halda stöðum sínum ekki enn þar?

Ég gæti t.d. sagt að lokum:

  • Hafið frekar vit á því að fita grísinn áður en þið slátrið honum.
  • Eða: Greinið á milli óskyldra þátta og dæmið ekki mann í einu máli fyrirfram til sektar í öðru.
  • Eða: Þegar þingmenn og framámenn opna munninn nú til dags, þefið þá eftir fnyknum af nornabrennunni. Það var aðhaldsleysi, klíkuskapur og sinnuleysi sem leiddi til hrunsins og það er það sem við ættum að reyna að forðast.

Fyrir mitt leyti hef ég engan áhuga á því að vísa þessum útrásarvíkingum út í hafsauga sem einhverju prinsippatriði. Frekar að vinsa úr þá sem eru raunverulegir glæpamenn. Við megum ekki gleyma að við búum í réttarríki eða allt fer til andskotans.

 

PS: Datt einhverjum í hug af alvöru að peningakallar frá hinum og þessum heimshornum hefðu látið sér detta þessi framkvæmd í hug þegar efnahagur heimsins snérist ekki um neitt annað en að fjárfesta í fjárfestinga-fjárfestinga-fjárfestingum í stað áþreifanlegra verðmæta? Wink

PSS. Rétt er að taka fram að ég hef ekki hugmynd um aðra eignaraðila CCP sem eiga í Verne Holdings nema þá Villa, enda er hugmyndin löngu orðin sjálfstæð og óháð leikjaframleiðandanum CCP.

PSSS. Fyrir mitt leyti og að mínu viti þá er Björgólfur Thor alveg frábær sem eigandi að fyrirtækinu okkar, hann skiptir sér aldrei beint af neinu enda hefur hann ekki vit á þessu. Situr bara á hliðarlínunni og lætur þá sem kunna að reka sýndarveruleika sjá um það. Það kæmi mér ekki á óvart ef það hafi líka verið raunin með Landsbankann, nema hvað sérfræðingarnir þar voru bara ekki sérfræðingar.


mbl.is Munur á Björgólfi og Högum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Rúnar Þór Þórarinsson

Höfundur

Rúnar Þór Þórarinsson
Rúnar Þór Þórarinsson
Leikjahönnuður m.m.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Búinn að fá bita hjá öllum!

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband