Gylfi & co. vita lítið um gagnaverið - Svona gerðist þetta

Mér blöskrar orðið algerlega hvað þingmenn okkar og leiðtogar í þjóðfélaginu eru að tjá sig um þetta gagnaver. Þeir eru eins og ég veit ekki hvað, alltaf í mýrinni að stika sér leið gegnum þoku og myrkur. Þetta er dálítið langt og ég bið um dálitla þolinmæði ágæti lesandi, en svona gerðist þetta frá mínum bæjardyrum séð:

 

Hugmyndin um gagnaver fæddist á CCP. Það er kannski smá einföldun, því stærri hópur í samfélaginu skeggræddi þetta, en það sem ég vil vekja athygli á er leiðin sem þessi hugmynd fór frá teikniborðinu og í framkvæmd. Ég veit þetta því ég tók þátt í fjölda heitra umræðna á Klapparstígnum um það hvernig væri að gera orkubúskap Íslendinga fjölbreyttari og gáfulegri. Í stað þess að raða niður álverum og taka allan orkuauðinn í eina atvinnugrein og það fremur mengandi, að reisa frekar gagnaver. Það vantaði fjármagn og fólk sem tilbúið var að hætta miklum tíma og fjármunum, en þetta fannst okkur samt alveg stórkostleg hugmynd. Enda er hún það - Frábær! Svo héldum við áfram að drekka kaffi og fá fleiri hugmyndir...

 

Svo keypti Björgólfur Thor og General Catalyst hlut í CCP fyrir því sem virðist ár og öld og þeir fengu þannig beint samband við mannauðinn á CCP. Ekki spillti fyrir að EVE Online tók flugið og allir voru hæstánægðir með að fjárfesta í tækniiðnaði á Íslandi. Þetta var áhætta, en allt lenti þetta réttu megin.

 

Allavega, svo barst þessi hugmynd í tal á milli tölvunördanna annarsvegar og Novator og General Catalyst hinsvegar. Match made in Heaven - Þarna voru saman komnir menn sem höfðu áhuga á að fjárfesta í hátækni og ég efast ekki um að velgengni CCP hafi haft sín áhrif á því að þessir menn ákváðu að byrja á þessu ótrúlega stóra og dýra og djarfa verkefni, sem á eftir að vera landi og þjóð til góða. Störf fyrir 100 manns, engin mengun, hverfandi slysahætta og gríðarlegir stækkunarmöguleikar. Plús það að Ísland allt kemst í mun betri samband við umheiminn þ.s. betur verður um það hugsað í kjölfar gagnaflutninganna. Spáið nú aðeins í hvað hangir á spýtunni, verið er að skapa raunveruleg verðmæti hér.

 

Að lesa skrif Gylfa um að Novator sé nýr þáttakandi er eins og að heyra hann segja að sólin hafi fyrst risið þegar hann sá hana fyrst. Þetta er alveg sprenghlægilegt. Sömu sögu má segja um iðnaðarráðherra og þingmenn og ráðherra jafnt. Þetta fólk er að gera lítið úr sjálfu sér hvert um annað þvert að mínu viti og kemst upp með það vegna þess að eðlilega veit almenningur lítið um þetta og mjög er í tísku, og gagnlegt til atkvæðaveiða að brenna nornir á bankabálinu.

 

Athugum aðeins gagnrýnina í ljósi þess sem hefur verið uppi í þjóðfélaginu undanfarið:

  • "Hann Björgólfur á að koma heim með peningana og fjárfesta hér!" - Egill Helgason og flestir Íslendingar.
  • "Hann Björgólfur - Að koma heim með peningana svona og fjárfesta svona upp í opið geðið á okkur!" stjórnarandstaðan, Ögmundur Jónasson ofl. á þingi, Gylfi Arnbjörnsson ofl.

Reynið nú að ákveða ykkur!

Það sem er vítavert er að veita þeim undanþágur segja þau í kór úr Framsókn, Samfylkingu, Ögmundur Jónasson og fleiri (ummæli Ögmundar keyrðu um þverbak í algerri fávisku um málið). Hér fá álverin hinsvegar gríðarlegar undanþágur svo þau komi hingað en fari ekki eitthvað annað. Svo kemur hér hópur manna, íslenskra sem erlendra, og semja um eitthvað í áttina við það sem álverin komust upp með og fá bágt fyrir. Það bjánalega í þessu er að álverin fengu samninga sem eru svo fjarri því sem aðrir eiga kost á.

 

Það veit hver maður nornabrennusvarið við þessu: "En Björgólfur Thor ber ábyrgð á hruninu, við vitum vel hver gerði þetta, en það er ekki búið að sanna það." Svona erfitt getur verið að greina aðalatriðin frá aukaatriðunum! Hér er það sem eðlilegt væri að gera:

  1. Ekki stefna samstarfinu við Novator og General Catalyst í hættu með svona málflutningi heldur ná þessu liði  hingað í fjárfestingar af þessu tagi.
  2. Leyfa þeim að leggja vinnu, pening of þekkingu í að hámarka verðmæti fjárfestingarinnar og veita fólki vinnu við byggingu og rekstur.
  3. Aðskilið gagnaversmálinu, láta svo reyna á það fyrir rétti hvort Björgólfur Thor sé skaðabótaskyldur. Þá má fyrir mér hirða af honum eignir eins og t.d. Novator og gagnaverið upp í það.
  4. Ef hann ber ekki persónulega ábyrgð þá einfaldlega sleppur hann og hvorki ríkið hefur brotið á honum né hann á ríkinu. Þá uppsker hann laun þess að hlusta á klikkaða tölvunörda á CCP sem koma til hans með núll krónur, kvakandi um eitthvað gagnaver uppi á Íslandi sem glímir við það samskiptavandamál að skoskar rottur naga sæstrenginn í sundur við útlönd og skera á gagnaflutninga! Algerlega geðveik hugmynd,  of geðveik til að setja í hana fé nema þú sért alveg gríðarlega áræðinn.

Aðalatriðið á Íslandi nú er að gæta hagsmuna þjóðarinnar og það er ekki gert með því að klúðra þessu með vanhugsaðri popúlistapólitík.

 

Menn eru auðvitað saklausir uns sekt er sönnuð og það á ekki að hirða eignir af fólki eða koma fram við það í ósamræmi við aðra uns dómur hefur fallið. Og í sambandi við þetta gagnaver er Björgólfur ekki sekur um neitt nema hafa trú á verkefninu og koma að því með því fólki sem best hentaði við það. Alveg fáránlegt að ætla að dæma manninn til "rýrnun eignahlutar" eða eitthvað slíkt áður en einn einasti dómur er genginn. Hvað heimta þingmenn næst að hann láti af hendi af því sem hann tók þátt í að byggja upp áður en hrunið átti sér stað? Vill Gylfi kannski þynna eignarhlut hans í CCP? Kannski að þetta vanhæfa þinglið sem talar með rassgatinu á sér í sambandi við þetta gagnaver sé frekar treystandi til að láta þetta verða að veruleika? Nei ég held ekki.

 

Þetta nær ekki nokkurri átt. Nú ætla ég að reyna að láta mér detta í hug kjánalegt svar við þessum pistli mínum: "Björgólfur á svo stóra sök í hruninu að hann á ekki skilið að fyrirtæki sem hann á eitthvað í fái einhverjar ívilnanir." Ég segi: "Gætið frekar sanngirni og hafið hag þjóðarinnar í fyrirrúmi." Hafið frekar vit á að taka á móti fjárfestingum sem þessum opnum örmum og tryggja hámörkun verðmætanna m.a. með því að tryggja góð rekstrarskilyrði. Hversvegna í ósköpunum á Ísland að veita umhverfisníðingnum Rio Tinto ívilnanir fyrir rekstri sínum en ekki fyrirtæki í eigu manna sem ekki hafa verið sakfelldir fyrir neitt? OK, bankinn hans opnaði kannski Icesave reikningana í þökk Fjármálaeftirlitsins, Alþingis og Seðlabankans en ég veit ekki betur en að þar starfi enn flestir sömu einstaklingarnir nema rétt í efstu stöðunum. Og þó... eru sumir ráðherrar formenn og varaformenn flokkanna sem áttu kost á því heilsu sinnar vegna að halda stöðum sínum ekki enn þar?

Ég gæti t.d. sagt að lokum:

  • Hafið frekar vit á því að fita grísinn áður en þið slátrið honum.
  • Eða: Greinið á milli óskyldra þátta og dæmið ekki mann í einu máli fyrirfram til sektar í öðru.
  • Eða: Þegar þingmenn og framámenn opna munninn nú til dags, þefið þá eftir fnyknum af nornabrennunni. Það var aðhaldsleysi, klíkuskapur og sinnuleysi sem leiddi til hrunsins og það er það sem við ættum að reyna að forðast.

Fyrir mitt leyti hef ég engan áhuga á því að vísa þessum útrásarvíkingum út í hafsauga sem einhverju prinsippatriði. Frekar að vinsa úr þá sem eru raunverulegir glæpamenn. Við megum ekki gleyma að við búum í réttarríki eða allt fer til andskotans.

 

PS: Datt einhverjum í hug af alvöru að peningakallar frá hinum og þessum heimshornum hefðu látið sér detta þessi framkvæmd í hug þegar efnahagur heimsins snérist ekki um neitt annað en að fjárfesta í fjárfestinga-fjárfestinga-fjárfestingum í stað áþreifanlegra verðmæta? Wink

PSS. Rétt er að taka fram að ég hef ekki hugmynd um aðra eignaraðila CCP sem eiga í Verne Holdings nema þá Villa, enda er hugmyndin löngu orðin sjálfstæð og óháð leikjaframleiðandanum CCP.

PSSS. Fyrir mitt leyti og að mínu viti þá er Björgólfur Thor alveg frábær sem eigandi að fyrirtækinu okkar, hann skiptir sér aldrei beint af neinu enda hefur hann ekki vit á þessu. Situr bara á hliðarlínunni og lætur þá sem kunna að reka sýndarveruleika sjá um það. Það kæmi mér ekki á óvart ef það hafi líka verið raunin með Landsbankann, nema hvað sérfræðingarnir þar voru bara ekki sérfræðingar.


mbl.is Munur á Björgólfi og Högum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er engin munur á kúk og skít. hefur aldrei verið og mun aldrei verða. !

Hvorki gúlfurinn né grísinn eiga að fá að fjárfesta á okkar landi , EVER ! Þeir eiga að skila til landsins þeim fjármunum og eignum sem þeir geta (einsog allir aðrir eyðsluguttar) og annaðhvort fara síðan í fangelsi eða bara hoppa í næsta eldgíg sem opnast !

Allt annað er bara bull !

btg (IP-tala skráð) 21.12.2009 kl. 07:52

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Góð grein Rúnar Þór.

Lélegt innlegg btg.

Hjálmtýr V Heiðdal, 21.12.2009 kl. 08:23

3 identicon

Björgúlfarnir voru fínir eigendur að Landsbankanum, þeir skiptu sér aldrei að mér, enda hafa þeir ekkert vit á mér og ég efast um að þeir viti hver ég er.  En það var þó verra að þeir greiddu aldrei ríkinu þessa 6 milljarða, sem nú virðast smáaurar, sem bankinn átti að kosta.  Það var líka verra að þeir ásamt ástmögrum sínum í stjórnmálaelítu og eftirlitselítu komu okkur í þetta icesave rugl.

Ef við byggjum í 'nýju' Íslandi, þá hlyti að vera hægt að taka til, fjarlægja 'the usual suspects' en halda áfram samstarfi við erlenda gagnaverjendur.  En það er ekki svo, ekkert hefur breyst.  Því fer það í taugarnar á sumum að sjá táknmyndir hrunsins rísa úr öskustónni meðan almenningur á bara að axla byrðarnar.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 21.12.2009 kl. 09:14

4 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

btg: Svona lítur rökþrot út. Takk fyrir innlitið.

Hjálmtýr: Takk fyrir að lesa þetta. Vonandi veltirðu þessu upp í umræðum við fólk.

Gullvagn: Mér þætti vænt um ef þú myndir þá gagnrýna eitthvað sem ég segði eða taka undir eftir því sem til fellur. Mér þykir hundfúlt að standa í veseni út af hruninu eins og aðrir, en umræðan einkennist af algerri vanvitund. Hvað kemur bankalánið þessari framkvæmd við? Finnst þér eðlilegt eða ekki að taka á þessu máli með lagalegum hætti? Við getum ekki sem ríki svipt fólki eigum eða rétti bara af því að okkur er illa við eitthvað sem þau hafa gert áður en dæmt er um rétt og rangt. Novator var LÖNGU kominn af stað í þessu.

Rúnar Þór Þórarinsson, 21.12.2009 kl. 09:59

5 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Sæll Rúnar,

Ég er sammála þér með það að það þarf að finna nýja hluti hér til atvinnusköpunar en álverin, þar er vont fyrir þjóðina að treysta á einn rekstur, því fjölbreyttari því stöðugri.

Hvað varðar Björgólf þá er það í raun alveg rétt hjá þér, saklaus uns sekt er sönnuð og spurningin er, eru aðrir fjárfestar eitthvað skárri/verri?

Halldór Björgvin Jóhannsson, 21.12.2009 kl. 10:25

6 Smámynd: Billi bilaði

Góður pistill framan af, en ég þarf ekki dómstóla og lagatækna til að úrskurða um sekt útrásarvíkinga í hruninu. Þann sem nýðist á heimili mínu fæ ég ekki til að koma að uppbyggingarstarfi þess.

Ef allt er falt fyrir peninga, líka samviskan, þá er vissulega illa komið fyrir okkur.

Sé þessi hugmynd raunverulega svona góð (sem ég vissulega trúi), þá er ekki hundrað í hættunni þó að við bíðum aðeins og byggjum málið upp. Við þurfum ekki fleiri refa-, minka-, kanínu-, og fiskeldi, sett upp af meira kappi en forsjá. Lífið er langhlaup.

Billi bilaði, 21.12.2009 kl. 11:12

7 identicon

Rúnar - gagnaverið er sannarlega góð tilbreyting frá álverunum, en að sama skapi þoli ég ekki undanþágupólitík, né þá stefnu að einkavæða gróða en ríkisvæða tap.

Undanþágupólitíkin er einokunarpólitík.  Þeir stærstu fá undanþágurnar, smáfyrirtækin fá hærri skatta og þrengri reglugerðir.  Einhver þarf jú að borga og ef við sleppum alltaf þessum stóru við öll gjöld og skatta, þá ratar þetta allt heim til okkar meðan ný stétt oligarka, fyrsta kynslóð er íslendingar, næst verða það svo grímulausir alþjóðabankamenn sem mergsjúga okkur.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 21.12.2009 kl. 12:26

8 Smámynd: Jón Ármann Steinsson

Fínn pistill út í gegn. Komdu þessu í prentmiðlana líka. Þetta er mjög þarft innlegg í umræðu sem þarf að eiga sér stað í þjóðfélaginu, sérstaklega utan þings því þar eru eintómir eðjótar. 

Jón Ármann Steinsson, 21.12.2009 kl. 16:27

9 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Bara frábær grein. 

Jón Halldór Guðmundsson, 21.12.2009 kl. 16:46

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta er afar vel unnin grein hjá þér Rúnar og full þörf á að taka þetta mál þeim tökum sem öll svona mál ber að taka. Í grunninn er ég sammála þér og var búinn að mynda mér sömu skoðun í því og þú. En því lengur sem ég velti þessu fyrir mér þá hallast ég meira til sömu efsemda og sumir þeirra sem tekið hafa hér til máls. Auðvitað verðum við að kappkosta að flytja væntingar okkar og áætlanir um atvinnusköpun úr þessum raunalega og frumstæða farvegi stóriðju og álvera. Við verðum að fara að nýta þá þekkingu sem við höfum eytt í ómældum fjármunum og leyfa hugmyndafluginu að fljóta. En ég skil nú ekki alveg þá atvinnustefnu sem beinist öll að sama sveitarfélaginu. Og ég skil ekki alveg þá niðurstöðu að Björgólfur Thor sé eini kosturinn ef hrinda á verkefni á borð við þetta í framkvæmd. Björgólfur Thor er blóðugur til axla eftir hryðjuverk á þegnum eigin lands og fleiri þjóða. Þjóð mín er búin að fá nóg af samningum við fólk af hans blóðflokki- því miður. En vissulega væri það sárt ef þetta  tækifæri til atvinnusköpunar næði ekki að komast í gang. 

Árni Gunnarsson, 21.12.2009 kl. 22:08

11 Smámynd: Björn Þór Jóhannsson

Frábær grein Rúnar.

Björn Þór Jóhannsson, 21.12.2009 kl. 23:42

12 Smámynd: Steingrímur Helgason

Flott innlegg frá þér.

Steingrímur Helgason, 21.12.2009 kl. 23:56

13 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Rúnar. Þessi grein þín er frábær og segir okkur hinum hvað hugmyndin fór fyrst á flug. Þú segir réttilega að þeir sem þú telur upp hafi ekki vitað forsöguna. En er við þá að sakast, mér finnst full ástæða til að upplýsa þá um málið, það er hvað varðar CCP.

Ég er alveg fyllilega sammála þér með að fordæmingin á aðkomu BTB að þessari fjárfestingu er fáránleg og jafnvel skaðleg. Hefur BTB verið kærður og þó að svo væri þá hefur hann ekki verið dæmdur.

Við eigum að hafa þann þroska að skilja á milli óskyldra þátta og þeir samningar um afslætti sem lætin eru út af eru eins og þú réttilega bendir á, þegar í boði fyrir álfyrirtækin. Ég fagna þessari nýju tegund orkufreks iðnaðar á Íslandi og það er sérstakt fagnaðarefni að mengun virðist vera í algjöru lágmarki. (hef bara ekki næga þekkingu á þeim þætti)

Hólmfríður Bjarnadóttir, 22.12.2009 kl. 01:34

14 identicon

Tek heilshugar undir með þeim, sem mæra grein þína.

Þér tekst svo um munar að varpa ljósi á stöðu þessa máls, forsögu og hve óumræðilega vænni á allan hátt slíkt ver er hafið yfir álið, það er ekki málið...

Þá er undarlegt hve menn eru fljótir á sér að dæma menn upp á sínar eigin spýtur og eru komir á fullt í nornaveiðum, þ.e. að dæma áður en sekt er sönnuð..´

Ef marka má sumt af þeim óhæfuverkum, sem forsvarsmenn stóru álfyrirtækjanna, sem fjallað er um í ,,Draumalandi" Andra Snæs, aðhöfðust,þá er BTB peð, jafnvel þótt sekur yrði fundinn...

Haltu áfram, því þetta mál er yfir allar bollaleggingar um persónur, málefnið er einfaldlega allt of dýmætt til þess..

Þ. Lár.

Þórarinn Lárusson (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 22:07

15 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Þakka ykkur öllum fyrir innlitið og afsakið ofboðslega sein svör. Jólin trufluðu :)

Halldór Björgvin - Ekki skal ég fullyrða neitt um hvort aðrir fjárfestar geti verið betri. Ekki fór fjárfesting BTB í Landsbankanum vel (sem var ekki einusinni fjárfesting heldur lán), en aðrar hafa farið afskaplega vel. Það er alveg pottþétt að af verri eigendum er nóg, lið sem situr í stjórnum í umboði einhverra samtaka og veit ekkert í sinn haus um reksturinn en er samt að skipta sér af öllu.

Billi Bilaði - Sæll vinur. Ég skil hvaðan gremjan kemur en við þurfum einmitt að gæta þess að selja ekki samviskuna fyrir peninga - Hvorki okkar peninga né annarra.  Blóðþorsti á ekki samleið með góðri samvisku.

Gullvagn - Ég er ekki frekar en þú hrifinn af undanþágupólitík. En eftir að undanþágur og ívilnanir eru orðnar að veruleika hjá álverunum þá þarf að móta starfsumhverfi annarra fyrirtækja í svipaðri stöðu eftir því með sanngirni að augnamiði. Þetta eiga einmitt ekki að vera undanþágur heldur nýjustu samningarnir eiga að vera viðmiðið, aðrir aðilar eiga að njóta sömu kjara og álverið, að öðrum kosti skal draga ívilnanirnar til álversins til baka (ef það nú væri hægt). Ég var semsé sammála þessu atriði hjá þér undir aðeins öðrum formerkjum, og tek heilshugar undir þér með önnur atriði.

Jón Ármann - Þakka lesturinn. Koma þessu í prentmiðlana segirðu? Ég er ekki viss um að þeir yrðu svo hrifnir af að birta þetta, því þá yrðu þeir að fletta ofan af fávisku og óhæfi þingmanna og leiðtoga atvinnulífsins sem eru að tjá sig um þetta og það gæti komið niður á samstarfi fréttamannanna og fjölmiðlamananna og hinni ókeypis auglýsingu sem þeir fá hver hjá öðrum. Það er svo óíslenskt aðviðurkenna galla í fari "leiðtoganna" (úff, maður er alveg að gubba við það eitt að skrifa þetta).

Jón Halldór, Björn Þór & Steingrímur - Takk kærlega fyrir innlitið, gaman að sjá ykkur.

Árni - Vinsamlegast líttu aftur á rökin fyrir því að láta þetta verkefni halda áfram aðskilið málsóknarpælingum á hendur BTB. Þetta er ekki spurning um að "leyfa BTB að koma að þessu" - Mér vitanlega var hann með í þessu frá fyrstu stundu og fyrirtæki og félagsskapur honum tengdur er búinn að drífa þetta áfram og koma á kortið. Við getum ekki leyft okkur, þó ekki nema væri samvisku okkar vegna, að hirða margra ára starf og fjármagn úr höndunum á fólki sem ekki hefur verið dæmt fyrir neitt. Ég hef lesið talsvert sem þú hefur skrifað og það hefur einkennst af þorsta eftir réttlæti og sanngirni. Láttu ekki blóðþorstann verða þeim dygðum yfirsterkari. Þetta þarf ég sjálfur margoft að minna sjálfan mig á því hefndin er sæt og freistandi, en ekki alltaf jafn góð þegar henni er náð.

Hólmfríður -  Varðandi þingmenn og forystufólk sem er að tjá sig um þetta mál, þá er lágmarkskurteisi þegar erum svona ofboðslega stóra og dýra framkvæmd að ræða, að láta hjá líða að tjá sig um hana viti maður ekkert í sinn haus. Líttu á þetta fólk í viðtölum, iðnaðarráðherra, þingmenn Hreyfingarinnar, Framsóknar og VG, Gylfa og annarra sem hafa tjáð sig - Þú sérð það vel á þeim að þau vita fullvel að þau eru ekki hæf til að tjá sig um þetta og láta bara vaða og fiska eftir því hvað fólk vill heyra.Það er alveg glötuð pólitík og einmitt eitt þeirra hegðunarmynstra sem orsökuðu hrunið.

Þórarinn - Takk fyrir inniltið. Það var bara ekki hægt annað en að segja fólki frá hvernig í þessu lá. Hefði ekki á móti að básúna þetta víðar og koma í prentmiðla en það vantar broddinn í þannig kynningarstarfsemi þegar maður býr erlendis. Álversskaðinn er skeður og bundinn í lög og samninga, nú þarf að gæta sanngirni í sambandi við alla aðra og miða  samninga við þær. Álverin eru börn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokka, svo og samningar þeim að lútandi. En það væri lélegt ríki sem leyfði þeim að semja við "sig og sína" eins og þeirra er von og vísa, og nota svo allt aðra standarda við önnur fyrirtæki. Þótt það sé í raun grábölvað getum ekki í réttarríki brotið gerða samninga við álverin nema búa okkur skaðabótaskyldu, fyrir utan auðvitað orðsporshnekki að brjóta samninga (a-la Árni Matt). Hinsvegar getum við komið af sanngirni fram við aðra stórnotendur orku, eins og garðyrkjubændur og gagnaversmenn.

Rúnar Þór Þórarinsson, 28.12.2009 kl. 15:26

16 Smámynd: Tómas Þráinsson

Mjög góður pistill hjá þér félagi. Vonandi að þeir sem ekki vita neitt um málið fari nú að skrúfa fyrir þennan óstöðvandi krana fáviskunnar og láti þeim eftir umfjöllun sem vit hafa á.

Tómas Þráinsson, 30.12.2009 kl. 10:25

17 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Takk fyrir það Tómas og enn fremur fyrir innlitið.

Rúnar Þór Þórarinsson, 2.1.2010 kl. 07:37

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Bankaðu upp hjá VG með þennan pistil. Þeir geta kannski lært eitthvað um mikilvægi viðskipta og fjárfestinga fyrir landið. Þeir eru þó fastir í því að við getum skattlagt okkur út úr þessari klemmu og borgað 200 milljónir á dag í Icesave í 15 ár með því að hækka verð og vísitölu og skrúfa skattana upp fyrir pyntingarmörk.  Uppskrift að endalokum, sýnist mér.

Það er svo komið gott af þessu galdrabrennujaftæði í fólki og þeirri ofureinföldun að einhverjir einn eða tveir egi alla sök á hruninu. Ef það er eki Davíð, þá er það Björgúlfur blabla. Hér rökstyðja menn m.a. að styðja Icesave samkomulagið, einfaldlega af því að það er gegn persónulegum vilja Davíðs. (engin önnur en Lára Hanna m.a.)  Skiptir eki máli 3/4 hluta þjóðarinnar og 60.000 undirskriftir. Það eru bara vitleysingar að mati þessara gáfumenna.

Þú átt að henda þessu inn sem grein á Mbl.  Það þarf að koma þessu í umræðuna aftur og fræða fólk. Við þurfum úrkosti.  Hafðu kæra þökk fyrir upplýsandi og skýra greinargerð.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.1.2010 kl. 08:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rúnar Þór Þórarinsson

Höfundur

Rúnar Þór Þórarinsson
Rúnar Þór Þórarinsson
Leikjahönnuður m.m.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Búinn að fá bita hjá öllum!

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 60402

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband